Glútenfrítt maísbrauð

Þetta er maísbrauð eins og finna má í suðurríkjum Bandaríkjanna. Létt, loftkennt og mjúkt þó það sé ekkert ger, Maísinn kemur fram í bragðinu, og það er jafnvel hægt að bæta við smá osti eða chili til að magna upp bragðið enn frekar.

Þetta er eitt mýksta glútenfría brauð sem ég hef bakað án þess að þurfa að nota ger, og hélst bara ljómandi vel saman. Það var ekki síðra daginn eftir, en gallin við glútenfrí brauð er oft sá að þau stífna mjög hratt.

Uppskriftin er einföld. Blandið þurrefnunum saman í eina skál, blandið vökvanum saman aðra. Blandið svo öllu saman og úr verður blautt deig.

Deigið er sett í smurt ofnfast mót, ég notaði 8″, og bakað við 220° í 20 mínútur.

Maísbrauð er gjarnan borið fram með ýmsum réttum, eins og chili kássum og grillmat. Það er líka algengur hluti af kalkúnafyllingu á Þakkargjörðarhátíðinni.

Hráefni

  • 1 bolli maísmjöl (ég notaði frá Urtekram)
  • 3/4 bolli glútenfrítt hveiti (ég notaði grænan Finax)
  • 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk sykur (hefðbundið maísbrauð er frekar sætt, nokkuð sem ég er ekki sérlega hrifin af svo ég hef lítinn sykur í því. Ef þið viljið hafa það sætt, þá er 1 msk hæfilegt sykurmagn)
  • 1 tsk salt
  • 1 egg
  • 2 bollar AB mjólk (ég notaði laktósafría frá Örnu)
  • 3/4 bolli brætt smjör

 

Leave a comment