Heimagert glútenfrítt pasta

Ferskt pasta er nokkuð sem ég stóð lengi í þeirri trú um að væri gjörsamlega ómögulegt að gera glútenfrítt og gott. Þegar ég fékk pastavél í jólagjöf var ekkert annað í stöðunni en að láta á það reyna. Og viti menn, það er hægt!

Ég byrjaði á því að prófa flókna uppskrift þar sem ég bjó sjálf til mjölblönduna, og hún var alveg ómöguleg. Í ljós kom að einfaldasta uppskriftin var allra best!

  • 320 gr glúten frítt hveiti (ég notaði Plain White Flour Blend frá Dove‘s Farm)
  • 1 tsk Xanthan Gum
  • 2 tsk sjávarsalt
  • 5 egg
  • 1 ½ msk ólífuolía

Þurrefnin eru sett saman í matvinnsluvél og hrærð saman svo blandan sé jöfn. Vélin er keyrð áfram á lágum gangi og olíunni bætt við. Því næst eru eggin sett í eitt og eitt.

Deigið er heldur blautt. Engar áhyggjur, það á að vera þannig.

Deigið er hnoðað aðeins á borði sem búið er að strá nóg af hveiti á. Það er mikilvægt að hnoða deigið ekki of mikið, bara hnoða það saman í eina kúlu og láta gott heita. Það er því næst vafið í plastfilmu og látið hvíla í ísskáp í 15 mínútur.

Að þessum 15 mínútum liðnum er deigið tekið út og því skipt í 6 hluta. Það er best að vinna með einn hluta í einu og láta hina bíða í plastfilmunni í ísskápnum á meðan.

Þetta er auðveldi hlutinn, mesta mausið er að koma deiginu í rétta þykkt.

Einn hluti deigsins er tekinn flattur aðeins út með fingrunum eða kökukefli á borði með nóg af hveiti. Deigið má ekki vera þykkara en um ½ cm á þykkt þegar það fer ofan í pastavélina.

  • Það er vissulega hægt að fletja deigið út með kökukefli en það er mikil vinna því það þarf að fletja deigið svo þunnt og jafnt út án þess að ofvinna það. Pastavélin er mun einfaldari lausn ef hún er fyrir hendi.

Deigið er fyrst sett í gegn á breiðustu stillingunni á pastavélinni. Ekki hafa áhyggjur af því þó pastað molni og sé pínu tætt í fyrstu skiptin sem það fer í gegn, þetta er ferli og deigið þarf að fara nokkrum sinnum í gegnum vélina áður en það er orðið almennilegt. Til þess að deigið fari að haga sér er mikilvægt að setja smá hveiti á það í hvert skiptið sem það hefur farið í gegnum vélina, brjóta það saman svo það sé jafnt að þykkt og ekki meira en um ½ cm á þykkt (um að gera að snara fram kökukeflinu ef ykkur finnst þörf á). Ef það verður aðeins tætt þá þarf örlítið meira hveiti, passið bara að setja lítið í einu.

Pastavélin mín er með 7 þykktarstillingum. Glútenfrítt pasta er hins vegar talsvert viðkvæmara og helst verr saman en venjulegt pasta, svo það er ekki með góðu móti hægt að hafa það þynnra en á stillingu 4. Ég gerði einn skammt á stillingu 3. Þá var deigið svo þunnt að ég þurfti nánast bara að horfa á það, þá rifnaði deigið.

Út úr þessu kemur langur renningur af deigi. Það er ýmislegt hægt að gera við hann, t.d. skella honum beint í lasagne. Ef það eru tæki til að skera á pastavélinni er mjög fljótlegt að renna deiginu í gegn til að fá spaghetti eða fettuccine (langir renningar). Ef ekki má bara nota hníf og skera fettuccineið.

Ferskt pasta sýður mun hraðar en þetta þurrkaða. Spaghettíið sauð á 1-2 mínútum og fettuccineið á um 3. Ég mæli sérstaklega með því að hafa spaggettíið ekkert allt of langt, mitt var 70-80 cm langt og það slettist allt út um allt þegar ég var að ná því upp úr pottinum.

Ég ákvað sumsé að gera bæði. Og gera fyllt pasta… því ég hef alls enga sjálfsstjórn.

Ravioli

Fyllta pastað sem varð fyrir valinu varð ravioli. Því það er einfalt. Ég ákvað að fylla það með beikoni og sveppum, en að sjálfsögðu er hægt að nota hvað sem manni dettur í hug eins og skinku, ost eða spínat. Ég steikti ½ bakka af sveppum og 100 gr af beikoni og kryddaði með vel af pipar.

Ég notaði 12cm krukkulok til að móta hringi í deigrenningina sem komu úr pastavélinni. Ég setti um það bil 1 tsk af fyllingu á hring, bleytti fingurinn með vatni og strauk yfir kantinn á hringnum, setti annan hring yfir og þrýsti köntunum saman til að loka. Til að þetta heppnist sem best er mikilvægt að þrýsta köntunum vel saman svo þeir verði þynnri og ekki heila eilífð að sjóða.

Ravioliið er með þykkara og stærra en hitt pastað og þarf því aðeins lengri suðu, eða um 4 mínútur. Það er minnsta mál að athuga hvort að pastað sé tilbúið, veiðið bara eitt ravioli upp úr pottinum, skerið smá af kantinum og smakkið!

  • Svo er bara að nota hugmyndaflug í pastasósur. Ég hafði það einfalt, ólífuolía, hvítlaukur og kirsuberjatómatar, en það má að sjálfsögðu nota hvaða sósu sem hugurinn girnist!
  • Uppskriftin gerir pasta sem er nóg í matinn fyrir um 6 manns. Ég gerði fyllt pasta úr 1/3 og það var yfirdrifið nóg fyrir mig, kærastann og sem nesti fyrir mig í vinnuna næsta dag.

IMG_2360

Uppskriftin birtist fyrst á síðu Selíak- og glútenóþolssamtaka Íslands.

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s